Hverfið mitt Kórar var unnið í mjög skemmtilegu samstarfi við nemendur í 5.bekk Hörðuvallaskóla, kór skólans og kennara.
Við mættum til þeirra í nokkra tíma í tónmennt þar sem við kynntum fyrir þeim verkefnið og veltum fyrir okkur hvernig þau vildu kynna hverfið sitt fyrir geimveru sem kæmi í heimsókn og vildi vita allt það besta um Kórahverfið.
Út frá svörum barnanna unnum við gönguleið um hverfið með það að markmiði að ná sem flestum perlum hverfisins inn í gönguna. Í framhaldinu settum við upp stúdíó í tónmenntastofunni þar sem upptökur á frásögnum þeirra fóru fram
Á sama tíma teiknuðu þau fyrir okkur myndir sem voru notaðar í kort af göngunni og lögðu okkur til efni í kynningartexta. Jafnframt fóru þau með okkur í prufugöngu og var sú ferð nýtt í myndatökur og hljóðupptökur. Við kíktum einnig í nokkra tíma til kórs Hörðuvallaskóla og voru börnin þar einnig mjög gjöful á sögur af hverfinu sínu sem rötuðu með í gönguna. Þau lögðu til fallegt lokalag og sungu fyrir okkur ýmis hljóðbrot.
Þetta verkefni var í alla staði mjög ánægjulegt og frábært að vinna það með svo áhugasömum og gefandi nemendum. Við þökkum þeim kærlega fyrir samstarfið og einnig starfsmönnum skólans sem tóku okkur opnum örmum og lögðu okkur lið alla leið.